Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Flm. (Sigrún Jónsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 206 um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum. Meðflm. mínir eru þær Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Lagabreytingar sem frv. kveður á um eru:
    1. Að fæðingarorlof eftir fæðingu verði lengt í áföngum um þrjá mánuði, þ.e. úr sex mánuðum í níu.
    2. Að öllum mæðrum sé tryggður hvíldartími fyrir fæðingu.
    3. Að fleirburamæðrum séu tryggðir tveir mánuðir fyrir fæðingu og þrír mánuðir að auki eftir fæðingu.
    4. Að fæðingarorlof til ættleiðandi foreldra, uppeldis - eða fósturforeldra lengist í áföngum til jafns við fæðingarorlof annarra foreldra.
    5. Veitt verði heimild til þess að foreldrar geti dreift greiðslum fæðingarorlofs eftir ákveðinn tíma þannig að hægt sé að lengja fæðingarorlofið á þann hátt ef foreldrar kjósa það.
    Tilgangurinn með flutningi þessa lagafrv. er að tryggja velferð barna og foreldra þeirra og gera foreldrum betur kleift að annast börn sín á fyrstu mánuðum ævi þeirra. Með því treystum við innbyrðis tengsl fjölskyldunnar og styrkjum hana á þýðingarmiklu og viðkvæmu skeiði. Núgildandi lög um greiðslur í fæðingarorlofi eru frá árinu 1987 en þá var vissulega stigið skref í rétta átt með því að lengja fæðingarorlofið úr þrem mánuðum í sex. Kvennalistakonur lögðu í þrígang fram frv. um lengingu fæðingarorlofs úr þrem mánuðum í sex á síðasta kjörtímabili sem ekki fékkst samþykkt. Skömmu fyrir þingslit og kosningar 1987 voru frv. þáv. heilbrrh., Ragnhildar Helgadóttur, um lengingu fæðingarorlofs lögð fram og samþykkt. Það ber að meta þær breytingar sem orðið hafa til batnaðar en nú er kominn tími til að stíga næsta skref.
    Eins og fram hefur komið er lagt til að fæðingarorlof eftir fæðingu verði níu mánuðir. Það mundi lengjast nú þegar í sjö mánuði, þann 1. jan. 1992 í átta mánuði og 1. jan. 1993 í níu mánuði. Að þessu mætti standa með svipuðum hætti og gert var þegar fæðingarorlofið var lengt úr þrem mánuðum í sex. Í grg. með frv. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Vart þarf að fjölyrða um hversu mikilvægt það er fyrir heilbrigði og framtíð barna okkar að njóta umönnunar foreldra sinna sem lengst. Hér er um að ræða réttindamál barna jafnt sem foreldra og ekki síður hagsmunamál samfélagsins alls. Sú staðreynd að foreldrar þurfa að hverfa aftur til vinnu sinnar að loknu sex mánaða fæðingarorlofi hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um hvað við erum að bjóða ungum börnum okkar. Í mörgum tilfellum eru þau sett í hendur ókunnugra meiri hluta dagsins aðeins sex mánaða gömul. Á þeim aldri þarfnast börn stöðugrar umönnunar sem eðlilegast er að foreldrar veiti. Sex mánaða gamalt barn er enn mjög háð uppalanda sínum, þremur mánuðum síðar hefur það öðlast mun meiri þroska og getur betur tekist á við umhverfið. Rannsóknir hafa

leitt í ljós hve mikilvægt það er fyrir þroska barns að náið og traust samband myndist milli þess og móður þess eða nánasta uppalanda þegar á fyrsta æviskeiði. Gildi móðurmjólkur fyrir ungbörn er ótvírætt, bæði til næringar og verndar gegn sýkingum.`` Í bók sem margir foreldrar eiga eflaust og heitir ,,Bókin um brjóstagjöf`` eftir Mary Messinger og var þýdd af Halldóru Filippusdóttur segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Brjóstamjólk er fullkomnasta næringin sem völ er á fyrir ungbörn. Í henni eru öll efni sem líkaminn þarfnast til vaxtar og hlutföllin eru alltaf rétt.``
    Rannsóknir benda til þess að börn fái síður ofnæmi ef reynt er að bægja frá þeim ofnæmisvaldandi efnum fyrstu sex til níu mánuðina eftir fæðingu. Í samantekt Helga Valdimarssonar læknis um óbirtar rannsóknir á ofnæmissjúkdómum í börnum segir m.a.:
    ,,Ofnæmissjúkdómar eru mjög algengir í börnum og ýmislegt bendir til að arfgengi þeirra fari vaxandi. Samkvæmt nýlegri rannsókn hérlendis fá um 37% barna umtalsverð ofnæmiseinkenni fyrir tveggja ára aldur. Hér er fyrst og fremst um að ræða astma, ofnæmisbólgur í nefi og augum, exem og önnur ofnæmisútbrot. Enn fremur er ýmislegt sem bendir til að ofnæmi geti verið meðverkandi þáttur í kveisuverkjum, þrálátum bronkítis og eyrnabólgum hjá ungbörnum. Það er því ljóst að ofnæmissjúkdómar standa mörgum einstaklingum og fjölskyldum þeirra fyrir þrifum og eru jafnframt þungur fjárhagslegur baggi á heilbrigðisþjónustunni.
    Nýlegar rannsóknir gefa góðar vonir um að unnt sé að beita árangursríkum forvarnaraðgerðum gegn ofnæmi. Margt bendir til að börn fái síður ofnæmi ef reynt er að bægja frá þeim ofnæmisvaldandi efnum fyrstu sex til níu mánuðina eftir fæðingu. Hér vegur þyngst að þessi börn fái að nærast á brjóstamjólk einvörðungu fyrstu sex mánuði ævinnar.``
    Við sex mánaða aldur eru þau mótefni sem ungabörn fá frá móður nánast upp urin og hæfileiki til mótefnamyndunar hjá barninu er að þroskast. Á þessu aldursskeiði, þ.e. 6 -- 9 mánaða, eru börn því viðkvæm fyrir alls kyns smiti og þá sérstaklega ofnæmisbörn. Þetta hlýtur að hvetja okkur enn frekar til lengingar fæðingarorlofs.
    Brjóstagjöf skiptir ekki síður miklu máli til myndunar sterkra tilfinningatengsla milli móður og barns. Í fyrrnefndri bók eftir Mary Messinger segir m.a.:
    ,,Því miður geta smábörn ekki skýrt afstöðu sína í orðum en þau gera það svo sannarlega með hegðun. Það er því vitað
að brjóstabörn njóta meiri öryggistilfinningar við að vera í svo náinni líkamlegri snertingu við lifandi veru.``
    Þó ég hafi fjallað hér töluvert um brjóstagjöf og mikilvægi hennar er ekki þar með sagt að allar mæður geti eða vilji hafa börn sín á brjósti. Ég ætla að leyfa mér að vitna í aðra bók sem fjölmargir foreldrar hér á landi eiga eflaust eða kannast við, en það er bókin Barnið okkar eftir breska sálfræðinginn dr. Penelope Leach sem þýdd var af Sigurði Thorlacius og Jóni Sigurði Karlssyni. Þar segir m.a. um barn á aldrinum 6 -- 12 mánaða, með leyfi forseta:
    ,,Barnið þarfnast nú stöðugrar aðgæslu. Það er ekki aðeins af öryggisástæðum sem það þarf stöðugt athygli þína heldur einnig vegna tilfinningalífs síns. Ekkert dæmi er til um meiri hollustu en hjá sex mánaða gömlu barni sem fengið hefur að tengjast móður sinni innilegum böndum nema hjá sama barni þremur mánuðum síðar.`` Og nokkru síðar í sama kafla segir: ,,Því meira sem það [þ.e. barnið] getur elskað núna og fengið ástúð á móti, því betur verður það fært um að veita og þiggja hvers kyns ást alla sína ævi.`` Þessi skoðun eða kenning er að mínu mati ákaflega trúverðug. Fyrstu mánuðir ævinnar hljóta að setja mark sitt á það sem eftir kemur. Því tel ég nauðsynlegt að lengja þann tíma sem foreldrar geta sinnt ungum börnum sínum án þess að þurfa að hafa miklar áhyggjur af fjárhagslegri afkomu fjölskyldunnar. Hér sem víðar er pottur brotinn í íslensku samfélagi og ekki tekur betra við þegar börnin eldast. Þá koma vandamál vegna dagvistunar, sundurslitins skóladags o.s.frv. Við verðum og eigum að beita öllum tiltækum ráðum til að koma til móts við þarfir barnafjölskyldna. Með samþykkt þessa frv. gæti Alþingi sýnt hug sinn í verki gagnvart yngstu borgurunum.
    Sumir segja kannski að nóg sé að gert. Sex mánaða fæðingarorlof sé nægilega langt. Konur hafi hér áður fyrr farið að vinna frá allt að hálfsmánaðargömlum börnum og þær hafi haft börnin á brjósti og hvað eina. Ekki ætla ég að draga úr því að margar mæður hafa nánast gert kraftaverk fyrir börnin sín þegar þjóðfélagið bauð ekki upp á annað. En ég trúi því að þessar mæður og foreldrar kjósi annan og betri aðbúnað fyrir afkomendur sína en þeim sjálfum var boðið upp á.
    Ekki er síður brýnt að búa betur að konum á meðgöngutímanum en nú er gert. Það er mikið hagsmunamál fyrir verðandi mæður að hafa skýlausan rétt til þess að fara í fæðingarorlof allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Það getur skipt sköpum bæði fyrir verðandi móður og ekki síður fyrir nýburann að móðirin sé óþreytt þegar að fæðingu kemur. Meðganga er mikið líkamlegt álag og geta ýmsir fylgikvillar gert vart við sig, ekki síst á síðustu mánuðum meðgöngunnar. Þar má t.d. nefna brjóstsviða, verk í nárum, verk í baki og fótum, svefntruflanir og áhyggjur eða hræðslu. Ófrískum konum er ráðlagt að gæta þess að verða ekki of þreyttar. Þær eiga ekki að vinna of mikið á meðgöngunni. En það getur svo sannarlega verið erfitt að vera útivinnandi, vilja standa sig á vinnustað en hafa hreinlega ekki líkamlegt þrek til að stunda vinnu sína.
    Nú starfa um 80% kvenna utan heimilis auk þess sem heimilisstörfin hvíla enn að stórum hluta á herðum þeirra. Það mundi því létta mjög á verðandi mæðrum ef þær gætu hafið töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir fæðingu eins og lagt er til í þessu frv. Ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að fresta því að taka þennan mánuð fyrir fæðingu og lengja þannig fæðingarorlofið eftir fæðingu. Markmiðið er að konur geti hvílst fyrir fæðingu en margt bendir til að

hvíld geti verið og sé jafnvel eina meðferðin sem hægt sé að bjóða barnshafandi konum til að draga úr áhrifum ýmissa fylgikvilla á meðgöngu. Í lögum um almannatryggingar segir að konum sé heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Ef ekki er um viðurkennda sjúkdóma að ræða hefur það í för með sér að sá tími sem konan hefur með barni sínu eftir fæðingu styttist sem því nemur. Samkvæmt mínum upplýsingum treystir tryggingayfirlæknir sér ekki til að veita barnshafandi konum rétt til eins mánaðar fyrir fæðingu ef konan þarf hvíldar með samkvæmt áliti læknis nema um skilgreindan læknisfræðilegan sjúkdóm sé að ræða. Sú breyting sem hér er lögð til felst í því að konur hafi skilyrðislausan rétt til að hefja töku fæðingarorlofs mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag án vottorðs frá lækni og að fæðingarorlof eftir fæðingu skerðist ekki við það. Benda má á að sambærilegar reglur eru í gildi á Norðurlöndunum um töku fæðingarorlofs fyrir fæðingu. Ég tel að flestar konur óski þess að geta farið í fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag og reyni á einn eða annan hátt að lengja fæðingarorlofið bæði fyrir og eftir fæðingu. Sumar neyðast til að stytta tímann með barninu eftir fæðingu og byrja t.d. mánuði fyrr í orlofi. Öðrum tekst að fá vottorð hjá lækni um veikindi. Aðrar vinna fram á síðasta dag og margar og allflestar nýta sumarfríið líka sem fæðingarorlof. Óskin er sú sama að ég held hjá flestöllum foreldrum, lengri tími með barninu.
    Víkjum þá að fleirburamæðrum. Ljóst er að konum sem ganga með fleirbura er hættara við fyrirburafæðingum en þeim sem ganga með eitt barn. Hættast er við fyrirburafæðingu á tímabilinu frá 30. viku og fram til 35. viku meðgöngunnar. Þeim sið hefur verið fylgt á Kvennadeild Landspítalans til margra ára að hvetja konur til að hætta að vinna þetta tímabil til þess að minnka þessa áhættu. Í mörgum tilvikum hafa konur verið lagðar inn á meðgöngudeild ef þær hafa fengið fyrirvaraverki á þessu hættuskeiði. Í 3. tölul. 2. gr. fyrrnefndrar reglugerðar um fæðingarorlof, nr. 20 1989, er fjallað sérstaklega um fyrirburðarmæður og þær aðstæður sem þurfa að vera fyrir hendi til að þær geti hafið töku fæðingarorlofs fyrir áætlaðan fæðingardag. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni samkvæmt vottorði læknis.`` Með þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til ættu allar fleirburamæður rétt á að hefja töku fæðingarorlofs a.m.k. tveim mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag. Það er nauðsynlegt að mati flm. þessa frv. að tryggja öryggi þessara barna og mæðra þeirra eins og best verður á kosið og í samræmi við þær kröfur sem fæðingarlæknar telja við hæfi. Það er augljós staðreynd að það er mikið álag fyrir hverja fjölskyldu að eignast fleiri en eitt barn í einu og því þykir okkur rétt að lengja fæðingarorlof um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.
    Hér á landi eru tvíburafæðingar um 40 á hverju ári að meðaltali. Þríburar fæðast hér annað eða þriðja

hvert ár og fjórburar hafa fæðst tvisvar hér á landi svo vitað sé. Hér er því ekki um stóran hóp að ræða þannig að kostnaðarauki vegna þessa ætti ekki að vera umtalsverður.
    Eðlilegt hlýtur að teljast að kjörforeldrar, uppeldis- eða fósturforeldrar njóti sama réttar og aðrir foreldrar hvað varðar lengd fæðingarorlofs þar sem þeir og viðkomandi börn þurfa tíma til að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Hér er ekki um mörg tilfelli að ræða á ári svo ekki mun verða um umtalsverða kostnaðaraukningu að ræða. Nú er orlof vegna töku fósturbarna fimm mánuðir en lagt er til að það lengist nú þegar í sjö mánuði, síðan í átta mánuði 1. jan. 1992 og loks í níu mánuði 1. jan. 1993 til samræmis við fæðingarorlof annarra foreldra.
    Mörgum foreldrum gæti hentað betur að vera lengur í fæðingarorlofi en í níu mánuði. Því er lagt til að heimilt sé að dreifa greiðslum eftir fyrstu þrjá mánuðina þannig að greiðslutímabilið geti lengst um allt að helming. Þetta er í samræmi við heimild sem starfsmenn hins opinbera hafa, svo fremi að því verði við komið á vinnustað þeirra. Eins þyrfti að gilda hér, þ.e. að um slíka tilhögun yrði samið á vinnustað hvers og eins en við teljum nauðsynlegt að tryggja þennan möguleika í lögunum.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim lagabreytingum sem kveðið er á um í þessu frv. Ég vil ítreka það sem áður er sagt að hér er um mikilvægt réttindamál að ræða sem varðar alla þegna þjóðfélagsins. Eins og launakjörum er nú háttað á vinnumarkaðnum er það viðurkennd staðreynd að flest heimili þurfa tvær fyrirvinnur. Atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist gífurlega á undanförnum áratugum. Árið 1960 unnu um 29% kvenna utan heimilis. En í sérriti Þjóðhagsstofnunar nr. 1 frá því í janúar 1989 kemur m.a. fram að árið 1985 var atvinnuþátttaka ógiftra kvenna um 79% og 83% meðal giftra kvenna. Ekkert bendir til þess að það hlutfall hafi lækkað síðastliðin ár nema síður sé. Í sérriti Þjóðhagsstofnunar segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Ef einungis er tekið mið af konum á aldrinum 16 -- 74 ára var atvinnuþátttaka íslenskra kvenna árið 1986 90,1%.`` Heimilin bera það ekki fjárhagslega að önnur fyrirvinnan láti af launuðum störfum utan heimilis til lengri tíma til að sinna umönnun ungbarns á fyrsta æviskeiði þess. Einnig er rétt að minna á að á mörgum heimilum er aðeins ein fyrirvinna. Það er skylda samfélagsins að gera öllum foreldrum fjárhagslega kleift að eignast börn og veita þeim viðunandi umönnun, ekki síst á viðkvæmu skeiði í upphafi æviferils. Greiðslur í fæðingarorlofi í dag eru allt of lágar og óviðunandi er að tekjur fjölmargra fjölskyldna skuli í raun lækka við það að eignast barn. Tekjur sem hjá mörgum eru nú þegar fyrir neðan það sem telst eðlilegt að fjölskyldur þurfi til framfærslu.
    Okkur Íslendingum er tamt að bera okkur saman við Norðurlöndin með ýmis málefni sem snerta þjónustu hins opinbera. Varðandi þann málaflokk sem hér er til umræðu kemur í ljós að víðast er fæðingarorlofið lengra en hér á landi. Hér er nokkur munur á

milli landa. Svíar hafa nú lengsta fæðingarorlofið á Norðurlöndum, 18 mánuði, þar af getur móðirin tekið 60 virka daga fyrir fæðingu. Þar næst koma Finnar þar sem fæðingarorlofið getur orðið allt að 12 mánuðir. Í Finnlandi eiga konur rétt á að vera frá vinnu í 30 virka daga fyrir áætlaðan fæðingardag. Danir og Norðmenn eru með álíka langt fæðingarorlof, Danir með 6 -- 7 mánuði og Norðmenn með 6 -- 7 1 / 2 mánuð. Í Danmörku eiga verðandi mæður rétt á að vera frá vinnu allt að fjórum vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Við Íslendingar rekum síðan lestina með 6 mánaða fæðingarorlof.
    Þá er komið að kostnaðarhlið þessa máls. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hafa 5222 einstaklingar fengið greiðslur vegna fæðingarorlofs fyrstu ellefu mánuði þessa árs frá stofnuninni. Heildargreiðslur nema rúmum milljarði króna, sem gera rúmar 93 millj. kr. á mánuði að jafnaði á árinu. Miðað við 7% hækkun verðlags, eins og gert er ráð fyrir í frv. til fjárlaga árið 1991, og svipaðan fjölda fæðinga á næsta ári ættu greiðslur á mánuði að vera tæpar 100 millj. kr. árið 1991. Kostnaðarauki vegna lengingar fæðingarorlofs um tvo mánuði strax, þ.e. einn mánuð fyrir og einn mánuð eftir fæðingu, er því um 200 millj. kr. á næsta ári. Einhverjum finnst þetta kannski vera há upphæð en hver telur sig þess umkominn að meta til fjár þann ávinning sem við höfum af því að veita nýjum borgurum þessa lands bestu umönnun á fyrstu mánuðum ævi sinnar? Við vitum jafnframt að ef við spörum á þessu sviði erum við að spara eyrinn og kasta krónunni. Á máli fjármálamanna mætti kannski orða það svo að við séum að fjárfesta í auknum mæli í börnunum okkar, í aukinni líkamlegri og andlegri heilbrigði þeirra og foreldra þeirra.
    Benda má á að með frv. Kvennalistans á síðasta kjörtímabili um fæðingarorlof var lagt til að hækka lífeyristryggingargjald atvinnurekenda um 1%, úr 2% í 3%. Nú standa hins vegar fyrir dyrum kerfisbreytingar á innheimtu gjalda af atvinnurekendum sem mundu leiða af sér hækkun á heildarframlagi atvinnurekenda í svokallað tryggingaiðgjald um tæpa 2 milljarða. Í grg. með frv. segir að hér sé um rúma 2 milljarða að ræða og það leiðréttist hér með, þarna átti að standa tæpa 2 milljarða. Það er hins vegar ljóst að hér verður um aukið framlag að ræða þannig að ef af umræddri kerfisbreytingu verður ætti að verða hægt að hnika til um 200 millj. kr. á næsta ári til að fjármagna lengra fæðingarorlof.
    Að undanförnu hafa verið til umræðu hér í þinginu mál sem snerta aðbúnað barna og unglinga í samfélagi okkar, t.d. um aðstæður barna sem flosna upp úr skóla, um grunnskóla, um umboðsmann barna o.fl. Það er athyglisvert að þá eru yfirleitt jafnfáir í salnum og nú er. Réttast er þó að byrja á byrjuninni og gera vel við yngstu börnin og foreldra þeirra. Öll hljótum við að vera sammála um að í upphafi skuli endirinn skoða. Með þessu frv. leggjum við kvennalistakonur til að nokkru verði kostað til til að reyna að bæta líkamlegt og andlegt heilbrigði þjóðarinnar.

Þetta teljum við vera forgangsverkefni. Farsæl byrjun æviferils í faðmi foreldra hlýtur að vera eitt af grundvallaratriðum þess að við eignumst hæfa og vel gerða einstaklinga. Árangur bættra aðstæðna ungbarnaforeldra verður án efa aukið heilbrigði, andlegt og líkamlegt, færri félagsleg vandamál svo eitthvað sé nefnt. Í stuttu máli betra mannlíf. Það er kominn tími til að Íslendingar taki sig á í þessu efni og búi betur að börnum sínum. Gerum þetta mál að forgangsverkefni dagsins í dag.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég óska þess að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og trn.